Ferð til Vestmannaeyja býður upp á einstaklega mikla möguleika í afþreyingu, fróðleik, skemmtun og góðum mat. Að eyða degi í Vestmannayjum er eitt af því sem skilur eftir góðar minningar. Náttúrufegurð eyjanna snertir við flestum og eru eyjarnar ríkar af sögu sem nær allt frá Landnámi til dagsins í dag. Þessi ferð er vel skipulögð og er hlaðin öllu því besta sem eyjan hefur upp á að bjóða. Lögð er áhersla á fróðleik í bland við skemmtilegar sögur svo innsýn fæst í lífið á eyjunni í dag og hvernig það hefur þróast í gegnum bæði góða og erfiða tíma. Bátsferð er eitthvað sem fær eyjahjartað til að slá og frábært að sjá hrikalega náttúruna frá sjó. Einn af kostum eyjanna er auk þess fjölbreytt matarmenning og gæði veitingahúsa og hefur hróður þeirra farið víða.
Þegar komið er til eyja byrjar ferðin á veitingastaðnum Tanganum þar sem hópurinn gæðir sér á súpum og ríkulegum salatbar með frábæru útsýni yfir höfnina og Heimaklett. Veitingastaðurinn er notalegur og býður upp á hughrif sem blanda gömlum og nýjum tímum saman.
Eftir mat er farið í vinsælu útsýnisferðina okkar með skemmtilegum leiðsögumanni sem segir skemmtisögur í bland við sögu eyjanna. Sprangan, Dalurinn, Stórhöfði og nýja-hraunið er skoðað. Við stoppum á nokkrum stöðum þar sem er gengið um á fallegustu stöðum Vestmannaeyja og frábært er að taka hópamyndir með einstökum bakrunni. Sögur sem gefa innsýn í hugarheim fólks gosnóttina 1973 í eyjum eru einstakar, að keyra um hraunið og reyna að gera sér í hugarlund hvernig það er að yfirgefa heimkynni sín í algjörri óvissu er sterk upplifun.
Næst tekur við bátsferð á Teistunni en hrikaleg náttúran í kringum eyjuna er stórbrotin séð frá sjó, bátsferðin er 1,5 klst þar sem leiðsögumaðurinn dælir út fróðleik sem eykur upplifun ferðarinnar. Að sjá eyjuna frá sjó eftir að hafa skoðað hana á landi er einstakt.
Eldheimar geyma minningar, myndir og hljóð Heimaeyjargossins og eftir að hafa hlustað á leiðsögumennina í ferðunum segja frá fólkinu sem bjó hérna eru Eldheimar næsti nauðsynlegi áfangastaður ferðarinnar. Fólk skoðar safnið á eigin hraða með sinn eigin leiðsögubúnað.
Oft er smá tími laus hérna til að kíkja í miðbæinn í eyjum, hægt er að kíkja í búðir eða fá sér einn kaldan drykk á Brother‘s Brewery eða Frúnni góðu vínbar áður en farið er út að borða. Við gefum hiklaust meðmæli ef þess er óskað þegar veitingastaður er valinn og pöntum fyrir hópinn. Við erum með hópaseðla frá veitingastöðunum og þekkjum vel til svo ákvörðunin ætti ekki að vera of erfið þegar valið er veitingahús.
Rútan kemur rétt fyrir kl.19 til að keyra hópinn í Herjólf en brottför er kl.19:30.