Djammferðin

Stuð, stemning og geggjað fjör

Vestmannaeyjar hafa upp á ótrúlega margt að bjóða; afþreyingu, fróðleik, náttúru, skemmtilegt fólk og feikilega góðan mat. Að eyða degi í Vestmannayjum í góðra vina hópi ætti eiginlega að vera skylda. Við mælum með að djammþyrstir hópar skelli sér í gott eyjapartý með okkur í Víkingferðum – við græjum heildarpakkann og þú mætir með góða skapið!
Í boði
Allt árið
Lengd
Dagsferð
Fjöldi í hóp
Hópar

Í Vestmannaeyjum býr afburðahresst fólk sem kann að skemmta sér. Seinustu ár hefur eyjastemningin verið flutt í Hörpu þar sem þúsundir hafa fengið að kynnast góðu partýi og eyjalögunum vinsælu. Á Þjóðhátíð koma tugþúsundir saman í stærsta eyjapartýi ársins þar sem gítaspil og lögin okkar góðu hljóma nánast allan sólarhringinn þar sem hvítu tjöldin standa og allir taka svo undir í brekkusöng. Þetta kunnum við – Eyjapartý er gott partý!

Nú er tækifæri til að skoða Vestmannaeyjar í þessari flottu djammferð og gera eins og á Þjóðhátíð – byrja snemma og taka daginn með trompi. Við bjóðum upp á að sækja hópa hvert á land sem er eða byrja ferðina þegar komið er til eyja. Það er ekkert mál að vera búin að sækja og kæla drykki sé þess óskað.

Við tökum hress á móti hópnum í eyjum og byrjum ferðina á veitingastaðnum Tanganum, þar sem ríkulegur salatbar og þrjár tegundir af súpum eru í boði. Tanginn er heillandi veitingastaður þar sem góður matur og geggjaðir drykkir skemmta bragðlaukunum og Heimaklettur horfir inn um gluggana.

Næst er skemmtiferð um eyjuna þar sem við keyrum á milli staða, förum út, skoðum okkur um og heyrum fyndnar sögur af eyjamönnum og gestum okkar. Hægt er að reyna sig í sprangi sem er þjóðaríþrótt eyjamanna og vekur það ætíð kátínu í hópnum að sjá fólk gera sitt besta eftir að vanur sprangari hefur sýnt réttu handtökin. Við lofum leiðsögumanni sem er góður í gríni og glensi og jafnvel gæti verið smá kjaftur á honum, það kemur í ljós. Í ferðinni má finna flotta staði fyrir hópmyndatöku og drykkir eru staðalbúnaður.

Eldheimar taka við eftir skemmtiferðina. Við eigum fullt af góðum sögum úr gosinu svo að skoða safnið og gera sér grein fyrir áhrifum gossins eftir að hafa heyrt grátbroslegu sögurnar er sérstök upplifun. Hver og einn skoðar safnið á sínum hraða með sínum eigin leiðsögubúnaði.

Veistu hvað kró er? Næsta stopp er nefnilega ein af krónum sem finna má nálægt sjónum. Krær eru gamlar veiðarfærageymslur og beituskúrar sem hafa verið dekkaðar upp fyrir lopapeysupartý. Jafnvel má finna fiskikar fyllt með ís til að kæla drykki fyrir utan, svona ef þess er óskað. Hér tekur við tónlist og stuð og smá eyjastemning. Trúbador mætir á svæðið og tekur örugglega lög sem allir þekkja. Ef það er eitthvað sem segir eyjapartý þá er það pottþétt gítarspil og söngur.

Kokkur frá veitingastaðnum Einsa kalda mætir, hitar grillið og græjar meðlætið. Maturinn hjá Einsa kalda er auðvitað bara eitthvað annað þegar kemur að bragðgæðum og þjónustu. Geggjuð grillveisla er tilbúin fyrir hópinn þegar trúbadorinn klárar og  góður grillmatur toppar ferðina áður en haldið er af stað í Herjólf.

Verðið á ferðinni miðast við 25 einstaklinga hóp.

Innihald ferðar

10:45 Landeyjahöfn (Mæting 30 mín fyrir brottför)
11:30 Móttaka á bryggjunni – Við tökum á móti hópnum og fylgjum yfir á veitingastaðinn Tangann
11:45 Tanginn – Súpa, salatbar og drykkir. Byrjum ferðina með fullan maga
13:00 Skemmtiferð – Við keyrum á milli staða í Eyjum, heyrum skemmtisögur af eyjamönnum og gestum þeirra, grín og glens í boði leiðsögumannsins
15:00 Eldheimar – Við pössum upp á að hafa smá menningu í djammferðinni svo það er alltaf hægt að segja yfirmanninum eða mömmu að þetta sé menningarferð til eyja
16:00 Kró – Partýstaðir eyjafólksins, kaldir drykkir og stemning
17:00 Trúbador – Gítarspil og eyjalögin
18:00 Grill frá Einsa Kalda – Einkakokkur mætir og grillar á staðnum á meðan hópurinn tekur lagið. Geggjaður matur áður en rölt er um borð í Herjólf

Innifalið

Herjólfur
Útsýnisferð
Kró
Trúbador

Ekki Innifalið

Matur á Tanganum
Drykkir
Matur í kró

Gott að vita

Far í Landeyjahöfn er ekki innifalið en ekkert mál að græja það
Ferð til baka með Herjólfi er kl 19 eða 21 eftir óskum hópsins
Verð miðast við 25 einstaklinga hóp

Veljið dagsetningu


Samstarfsaðilar

VikingTours™ er fjölskyldu rekin ferðaskrifstofa með mikla reynslu og vitnesku um Vestmannaeyjar. Við bjóðum upp á mikið af úrvali af ferðum og er aðal merki okkar leiðsögn að hætti heimamanna. Leggjum áherslu á að tengja staðreyndir við skemmtilegar sögur af fólkinu í eyjum. Við bjóðum upp á margs konar upplifun frá sjó og landi, bíl, rútu og göngur. Látum mikilfenglega náttúru njóta sín og tengjum söguna og upplifun fólksins saman. Fjölbreytt fuglalíf, eldgosasaga er eitthvað sem hefur heillað mikið og einbeitum við okkur að því að hvort sem þú ert í hópi eða einstaklingar á ferð þá reynum við að uppfylla hinn fullkomna dag í eyjum. Sjáumst í sumar í eyjum.
VikingFerðir™ - VE travel ehf.
Heiðarvegi 59 - 900 Vestmannaeyjum
Tel. +354 488 4800
info@vikingtours.is
© Copyright 2020 - 2022 VikingFerðir™ VE travel ehf. - All Rights Reserved  - Friðhelgisstefna - Powered by Zix ehf.
check-circle-ouserscalendar-fullclock linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram