Vestmannaeyjar eru þekktar fyrir mikla og góða matarmenningu. Allt frá því að eyjan byggðist hefur hún haft að geyma fjölbreytta matarkistu, mikið var sótt í björgin og fjölbreytt fuglalífið hefur gefið vel. Lundinn hefur verið hvað þekktastur í gegnum tíðina sem mikil matbjörg og er enn mjög tengdur eyjunum, sérstaklega þegar kemur að þjóðhátið. Eggjatýnsla er enn við líði þrátt fyrir að vera í minna mæli en áður var. Fiskurinn í sjónum var aðalfæða eyjamanna í aldanna rás og komu margir af meginlandinu til vinnu hér við fiskveiðar og -vinnslu.
Í dag höfum við veitingastaði sem eru með þeim bestu á landinu og lögð er mikil áhersla á ferskt hráefni. Hvað er skemmtilegra en að ganga á milli staðanna hér í eyjum og fá skemmtilegar sögur og smakk? Þessi ferð er frábærlega samsett með góðum mat, sögum og fróðleik fyrir hópinn þinn.
Við gerum ráð fyrir að ferðin byrji á bryggjunni, það er þó ekkert mál að hafa upphafspunktinn annars staðar sé þess óskað.
Gengið er í rólegheitum á veitingastaðinn Slippinn sem er þekktur fyrir nýtingu á stað- og árstíðabundnu hráefni. Slippurinn er staðsettur í Magna-húsinu sem er elsta steinsteypta hús eyjanna og því er skemmtilegt að benda á að kokkar Slippsins tvinna saman gömlum hefðum við nýrri aðferðir og gera hversdagslegum íslenskum hráefnum hærra undir höfði en flestir veitingastaðir. Á Slippnum er okkur sagt betur frá sögu staðarins og fáum við smakk af töfrunum sem þeir græja í eldhúsinu á degi hverjum.
Stutt ganga er frá Slippnum og í sprönguna. Fyrir þá sem ekki kannast við nafnið þá er sprangan staðurinn sem ungir eyjapeyjar æfðu sig í að sveifla sér með reipi í klettunum fyrir fæðuöflun fyrr á tímum. Í dag sveifla bæði peyjar og pæjur sér í reipinu sem hangir í klettunum og eru mörg hver nokkuð fær. Leiðsögumaðurinn sýnir réttu handtökin og þeir sem þora geta spreytt sig.
Gengið er til baka og segir leiðsögumaðurinn skemmtilegar sögur af fólkinu í eyjum, leiðin liggur í gegnum miðbæinn og í Sagnheima sem er byggðasafn okkar eyjamanna. Byggðasafnið í eyjum geymir ekki tylft gamalla rokka eða reiðtygi í röðum, í Sagnheimum má skoða merkisatburði og einstaka þætti í sögu Vestmannaeyja. Í safninu getur maður t.d. stungið sér inn í skreytt þjóðhátíðartjald, rölt inn í klassískt verbúðarherbergi eða skoðað teiknaða syrpu af Tyrkjaráninu. Sagnheimar eru án efa besta byggðasafn landsins að mati heimamanna.
Að lokum er stutt leið á veitingastaðinn Gott þar sem hópurinn sest niður og fær sér ljúffenga máltíð á þessum fallega veitingastað. Gott er heilsusamlegur og skapandi fjölskylduveitingastaður þar sem allt er lagað frá grunni. Áhersla er lögð á ferskt hráefni og gott bragð ásamt notalegu umhverfi til að njóta matarins. Veitingastaðurinn er í miðbænum svo staðsetningin er fullkominn endapunktur á góðri ferð.